Sett var Noregsmet fyrir skemmstu í veiði á túnfisk á stöng þegar Thomas Tangen Flem náði um borð í bát af Akseladden gerð með aðstoð félaga tæplega 400 kílóa þungum fiski nærri Svinøya í Lófóten. Fyrra met var 333 kílóa fiskur.
Flem segir að það sé samvinnuverkefni að ná svona fiski um borð en með honum á bátnum voru tveir félagar hans í Team Okuma sem tekur þátt í verkefninu „Merkja og sleppa/frístundaveiðar“ á vegum norsku fiskistofunnar og hafrannsóknastofnunar Noregs. Einn sjái um að stýra bátnum, annar um að veiða fiskinn og sá þriðji setur ífæru í hann til að landa honum um borð.
Þeir félagar höfðu verið í 6-7 tíma á siglingu áður en þeir urðu varir við túnfiskavöðuna.
„Það eins og syði í hafinu og þarna var túnfiskur í hundraðavís,“ segir Flem í samtali við Sunnmørsposten í Álasundi.
Frystikisturnar fullar
Túnfiskur beit strax á og dró út eina 600 metra af línu. „Það var því ekkert annað í stöðunni en að festa á sig öryggisólina og byrja slaginn. Manni finnst maður lítill þegar setið er í svona litlum báti og slegist við tæplega 400 kílóa skepnu. Ég var búinn á því í nokkra daga á eftir,“ segir Flem.
Samkvæmt „Merkja og sleppa/frístundaveiðar má Team Okuma velja hvort þeir merkja fiskinn og sleppa honum eða hirða hann til handargagns. Fiskurinn var tekinn í land og dugar í nokkrar góðar máltíðir fyrir þá félaga sem hafa fyllt frystikisturnar heima af þessum dýrindismat.
Fiskurinn vó 410 kíló fyrir blæðingu en að endanlegri og nákvæmri vigtun í landi reyndist hann 396,7 kíló.