Vöktunarhópur hjá norsku hafrannsóknastofnuninni sem fylgist með ástandinu í Barentshafi og Noregshafi hefur gefið út skýrslu sína fyrir árið 2013. Þar kemur fram að þótt framleiðslan í Noregshafi sé mjög mikil hafi mælingar síðasta árs sýnt kröftugan samdrátt í magni dýrasvifs.
Noregshaf er mikilvæg uppspretta rauðátu. Rauðáta og önnur svifdýr eru líka undirstaða tilveru fiska, sjávarspendýra og sjófugla. Lagt er til að fylgst verði grannt með þróun hafsvæðisins í framtíðinni. Noregshaf verði svo að segja sett undir smásjána.
Hér eru miklir hagsmunir í húfi því stóru fiskstofnarnir, síld, makríll og kolmunni eru mjög háðir svifdýraframleiðslu í Noregshafi.