Fyrsta farþegaskip ársins, Borealis, kom til Reykjavíkur í dag. Skipinu seinkaði vegna brælu og slæmrar veðurspár en til stóð að skipið kæmi fyrr til hafnar í Reykjavík. Vegna aðstæðna var áætlun skipsins breytt og kom það fyrst til Akureyrar og siglir þaðan til Reykjavíkur. Norðurljósin munu vera ástæðan fyrir komu farþegaskipa svo snemma árs.
Farþegaskipið sem um ræðir heitir Borealis og getur tekið 1.404 farþega, auk 620 manna áhafnar. Munu þó aðeins 703 farþegar koma með skipinu í þetta sinn. Borealis er 237 metra langt, 32 metra breitt og er tæplega 62.000 brúttótonn.
Aðalástæðan fyrir komu farþegaskipa svo snemma árs er aukinn áhugi á norðurljósasiglingum. Með þeim opnast ný tækifæri fyrir innviði landsins og mikilvægt er að nýta á skynsaman hátt, segir í umfjöllun Faxaflóahafna.
Byggir á væntingum
Alls eru bókaðar 207 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna árið 2022 með um 217.000 farþega. Í mars verða tvær skipakomur, þrjár skipakomur í apríl en síðan hefjast siglingar að alvöru í byrjun maí, ef allar áætlanir standast. Síðasta skipakoma farþegaskips er áætluð í október.
Bókunarstaða Faxaflóahafna, líkt og fyrri ár, byggir á væntingum skipafélaganna. Rauntölur síðustu tvö ár hafa hins vegar verið allt aðrar. Skipafélög hafa afbókað ferðir sínar með mánaðar til viku fyrirvara. Raunhæfari listi fyrir sumarið er því talinn liggja fyrir í lok maí eða í byrjun júní, að mati Faxaflóahafna.
Mörg leiðangursskip
Nokkur skip munu sigla til Faxaflóahafna í fyrsta sinn árið 2022, að óbreyttu. Þar er nefnt skipið Le Commandant Charcot sem er hannað sem ísbrjótur til siglinga á norðurslóðum. Þetta mun vera fyrsta farþegaskipið sem siglir til Reykjavíkur og er knúið náttúrulegu gasi (LNG). Skipið átti að koma til landsins í fyrra en úr því varð ekki.
Í lok ágúst mun síðan skip frá Norwegian Cruise Lines vera gefið nafn í Sundahöfn. Þetta er í annað sinn sem slíkt er gert í Reykjavík. N.G. Endurance, sem tekur í kringum 148 farþega, var gefið nafn í júlí 2021 við Faxagarð í Gömlu höfninni. Skipið frá Norwegian Cruise Line er hins vegar mun stærra en N.G. Endurance og áætlað er að í kringum 2.500 farþegar verði um borð í þetta sinn.
Þau farþegaskip sem eru með flestar skipakomur á árinu eru leiðangursskip og taka þau í kringum 250 farþega. Farþegar koma yfirleitt fyrr til landsins með flugi og gista á hótelum, áður en farið er í siglingu um landið. Leiðangursskipin eru þau farþegaskip sem hvað víðast fara um landið, en stærð þeirra henta vel innviðum á landsbyggðinni.
Mikið um farþegaskipti
Í umfjöllun Faxaflóahafna segir að farþegaskipti munu aukast árið 2022, ef allar bókanir ganga eftir.
„Áætlað er að af þessum 207 skipakomum, verði 98 skipakomur með 51.022 farþega í farþegaskiptum sem er talsverð aukning frá fyrri árum. Þetta kallar á aðstöðubreytingar hjá Faxaflóahöfnum í Sundahöfn þar sem núverandi aðstaða er takmörkuð,“ segir þar en með vorinu verður sett upp bráðabirgðaaðstaða með viðeigandi tækjabúnaði við Skarfabakka vegna þessa. Eru kaup búnaðar þegar hafin en í haust verður hugað að næstu skrefum, og þá varðandi framtíðarhúsnæði fyrir farþega og búnað við Skarfabakka.“