Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåt) telja að hlutur Norðmanna sé lakari en hlutur Grænlendinga í gagnkvæmum fiskveiðisamningi þjóðanna fyrir árið 2012 og vilja breytingar þegar hann verður endurnýjaður fyrir næsta ár. Fram kemur á vef samtakanna að kvóti Grænlendinga af hvítfiski í norskri lögsögu sé 5.510 tonn en norski kvótinn við Grænland 3.975 tonn.

Samtökin segja að þótt Norðmenn fái umtalsverðan kvóta af grálúðu, sem sé verðmætur fiskur, vegi það ekki upp á móti því ósamræmi sem sé í kvótaúthlutunum landanna. Þá kvarta Norðmenn undan því að nýting grálúðukvótans við Austur-Grænland hafi verið léleg, annar vegar hafi línubátarnir átt erfitt uppdráttar vegna þess að hvalir éti lúðuna af línunni í stórum stíl, og hins vegar hafi togveiðar á grálúðu við Austur-Grænland ekki verið nægilega arðbærar. Þess vegna vilja norskir útgerðarmenn fá sem mest af grálúðukvóta sínum við Vestur-Grænland.

Norðmenn hafa rækjukvóta við Austur-Grænland með samningum við Evrópusambandið en vilja heldur veiða rækjuna við Vestur-Grænland þar sem aflabrögð eru betri.