Samtök norskra útvegsmanna eru afar ósátt við núgildandi samning Noregs og Ísland um loðnuveiðar í íslenskri lögsögu og lýsa óánægju sinni með að viðleitni norskra stjórnvalda til þess að fá breytingar á samningnum hafi ekki borið árangur.

Samkvæmt samningnum er hlutur Norðmanna í veiðum úr loðnustofninum 8%. Norskir útvegsmenn benda á að þar sem þeir megi aðeins veiða 35% af sínum hlut innan íslenskrar lögsögu fái þeir ekki nema 3.500 tonn af 125.000 tonn viðbótarkvótanum sem nú hefur verið úthlutað. Afganginum af norska kvótanum hafi íslensk stjórnvöld úthlutað til íslenskra skipa en samkvæmt samningnum eigi að bæta Norðmönnum það á næstu loðnuvertíð.

Auk þessa eru Norðmennirnir óánægðir með það ákvæði að norsk skip megi ekki veiða sunnan við línu sem dregin er út frá Suðausturlandi, að þeir verði að hætta veiðum 15. febrúar og að fjöldi skipa að veiðum hverju sinni í íslensku lögsögunni sé takmarkaður.