Kolmunnaveiðar Norðmanna eru hafnar. Í gær voru fjögur norsk skip að veiðum og tvö á leið á miðin. Veiðisvæðið er á Puntsvínabanka (Porcupine bank) vestan við Bretlandseyjar og á alþjóðlegu hafsvæði. Á vef norska síldarsamlagsins segir að mikið af kolmunna sé að sjá í lögsögu Evrópusambandsins og skipunum nægi að toga í skamman tíma til að fá hæfilegan afla.
Í síðustu viku nam afli Norðmanna 10.000 tonnum og eru sum skipin þegar búin með kvóta sinn. Aflanum hefur aðallega verið landað í Killybegs á Írlandi en einnig í Peterhead í Skotland, auk þess sem eitt skip hefur komið með afla sinn til Noregs það sem af er vertíðinni.
Verð fyrir aflann hefur verið á bilinu 2,57-3,14 norskar krónur fyrir kílóið, jafngildi 53-64 ISK.
Kolmunnakvóti Norðmanna í ár er 118.000 tonn og eru þeir búnir að veiða rúmlega 24.000 tonn.