Hver Norðmaður keypti um 20 kíló af fiski til neyslu heimavið á síðasta ári. Þorskurinn er sem fyrr vinsæll. Í fyrsta sinn á tíu ára tímabili kaupa Norðmenn meira af ferskum fiski en frosnum.

Þetta kemur fram í nýrri könnun norska sjávarútvegsráðsins (Norges sjømatråd) á mararinnkaupum norskra heimila á árinu 2014.

Norsk heimili keyptu fisk fyrir 7,6 milljarða á síðasta ári (132 milljarða ISK). Um 95% Norðmanna settu fisk einhvern tímann á árinu í innkaupakörfuna og hver Norðmaður keypti að meðaltali 19,7 kíló. Innkaupavenjur hafa líka breyst því meira er keypt af flökum og fiskbitum en heilum fiski og fiskfarsi.

Norðmenn keyptu 10% meira af þorski í fyrra en árið 2013. Þá borða þeir 41% meira af ferskum þorski en áður á kostnað frysta fisksins. Alls sporðrenndu Norðmenn 15 þúsund tonnum af þorski árið 2014.