Nú er ljóst er að mikið magn loðnu sem Norðmönnum tókst ekki að veiða á tilteknum tíma gengur til íslenska útgerða. Þegar þetta er skrifað virðist skerðing kvótans vegna lokaráðgjafar Hafrannsóknastofnunar núllast út og aflaheimildir íslensku útgerðanna verði töluvert hærri en upphafleg ráðgjöf sagði til um eða vel norðan við þau 662.000 tonn sem upphaflegi kvótinn hljóðaði upp á.
Hátt í 400.000 tonn af íslenska kvótanum er kominn á land. Þar af hafa um 90 prósent verið brædd í mjöl og lýsi en tíu prósent verið fryst. Áætluð verðmæti þeirrar loðnu sem hefur verið unnin til þessa eru hátt í 30 milljarða en sú loðna sem verður veidd það sem lifir af febrúar og til loka vertíðar mun skila hlutfallslega mun meiri verðmætum vegna meiri frystingar til manneldis og hrognavinnslu. Spár þeirra sem gerst þekkja til um að útflutningsverðmæti loðnu verði á bilinu 50 til 60 milljarðar króna virðast því hafa verið mjög nærri lagi.
Hafrannsóknastofnun lagði til í síðustu viku að loðnuafli á vertíðinni verði 869.600 tonn, sem þýðir 34.600 tonna lækkun ráðgjafar frá þeirri sem gefin var út 1. október 2021. Ráðgjöfin byggir á samanteknum niðurstöðum á mælingum á stærð veiðistofns í haustleiðangri og leiðöngrum sem fóru fram frá 19. janúar til 14. febrúar. Áætlaður afli á milli haust- og vetrarmælinga var 275.000 tonn. Bráðabirgðaráðgjöfin frá 1. október var upp á 904.000 tonn og þar af komu 662.000 tonn í hlut Íslendinga.
Ósáttir Norðmenn
Eins og Fiskifréttir hafa greint frá á síðustu vikum þá kvarta Norðmenn sáran yfir því veiðifyrirkomulagi sem bundið er í samningum um loðnuveiðar þeirra hér við land. Talsmenn norskra útgerðarmanna hafa farið mikið í norskum fjölmiðlum og þarlend stjórnvöld hafa rennt nokkrum símtölum til kollega sinna hér heima til að reyna að liðka um fyrir veiðum í þeim tilgangi að ná kvótanum sem er 145.000 tonn, miðað við upphaflega veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
Svör íslenskra ráðamanna hafa verið einföld og skýr til þessa. Samningur um loðnuveiðar er í gildi og honum verður ekki breytt fyrirvaralaust. Vilji þeir að gerðar verði breytingar á milliríkjasamningum um loðnuveiðar hér við land, þá þurfi að taka þær óskir upp með formlegum hætti á næsta samningafundi ríkjanna en rammasamkomulag Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiðar, sem gert var árið 2018, kveður á um að takist Norðmönnum ekki að veiða allt það magn sem þeim er úthlutað þá gangi þær heimildir til Íslendinga.
Í tvíhliða bókun Noregs og Íslands við rammasamkomulagið segir að komi endanleg ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun óvenju seint hafi íslensk yfirvöld „samþykkt að íhuga framlengingu fiskveiðitímabilsins.“ Ekki er þó kveðið á um neina skyldu til þess og ekkert heldur minnst á að fjölga mætti norskum skipum, leyfa þeim að veiða með öðru en nót, eða stækka veiðisvæðið til suðurs, sem eru helstu umkvörtunarefni Norðmanna.
Svandís Svavarsdóttir, ráðherra sjávarútvegsmála, vék að þessu í grein í Morgunblaðinu í gær undir yfirskriftinni Samningar við Norðmenn standa, og kemst svo að orði:
„Samskipti hafa verið milli mín og norsks kollega míns, Bjørns Skjærans, síðustu vikur varðandi þetta. En Norðmenn hafa farið fram á breytingar á því samkomulagi sem er í gildi á milli ríkjanna. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að breyta þeim reglum sem í gildi eru á miðri loðnuvertíð. Samningar milli jafningja fara fram með formlegum hætti en ekki með þeim hætti að annar aðili breyti samkomulaginu þegar það hentar hverju sinni,“ skrifar Svandís og segist jafnframt hlakka til að „taka samtalið við Norðmenn á næstu mánuðum og þeir eru ekki einir um að vilja gera breytingar. Breytingar á samningum um loðnuveiðar þurfa alltaf að skoðast í samhengi við aðra deilistofna,“ segir Svandís og vísar til samningaumleitanna um nýtingu strandríkja á makrílstofninum.
Viðbragð Norðmanna við þeirri stöðu sem komin var upp, var leysa loðnuskip sín undan kvótum sínum og öllum var leyft að veiða óheft síðustu klukkutímanna í þeirri viðleitni að ná sem mestu.
Þegar Fiskifréttir fóru í prentun voru norsku skipin búin að melda tæp 90.000 tonn af loðnu af 145.000 tonna upphafskvóta, en var þá ekki búið að taka tillit til skerðingar í ráðgjöf sem skiptir litlu í stóra samhenginu.
Margar torfur
Loðnuveiði hefur verið góð að undanförnu þegar veður leyfir. Gangan er komin vestur fyrir land og voru skip að veiðum á Faxaflóa áður en brældi á þriðjudag. Frá því er jafnframt sagt að nokkrar misstórar torfur virðast vera í hefðbundinni göngu með austur- og suðurströndinni. Síldarvinnslan sagði frá því að á einum tímapunkti voru yfir 200 sjómílur frá vestasta veiðisvæðinu til hins austasta. Í frétt fyrirtækisins sagði Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, að honum þætti þessi loðnuvertíð vera sérstök. Loðnan gangi dreifðari en oft áður og veiðin fari víða fram.