Norska útgerðarfyrirtækið Aker QRILL og Tersan skipasmíðastöðin í Tyrklandi hafa gert samkomulag um smíði á hátæknivæddu skipi fyrir veiðar á suðurhafsljósátu. Þetta verður fjórða skipið þessarar gerðar sem Aker QRILL tekur í notkun.
„Fjórða skipið í flota okkar verður prófsteinninn á áframhaldandi vöxt og þróun þessara veiða,“ segir Webjørn Barstad, framkvæmdastjóri Aker QRILL Company.
„Skipið verður grundvöllurinn að því metnaðarfulla takmarki okkar að verða áfram leiðandi aðili í veiðum og vinnslu á ljósátu og til að tryggja okkur aðgengi að þessari sjálfbæru og endurnýjanlegu sjávarauðlind sem mætir stöðugt vaxandi eftirspurn á heimsvísu eftir sjálfbæru sjávarfangi með framúrskarandi næringareiginleika.”
Lífmassi um 500 milljónir tonna
Suðurhafsljósáta verður allt að sex cm á lengd og allt að 2 grömm að þyngd. Hún er einkum nýtt til dýrafóðurs en stöðugur vöxtur hefur verið í nýtingu hennar í lyfja- og fæðubótariðnaði. Helsta tegundin ber latneska heitið Euphausia superba og samtals er lífmassi talinn vera í kringum 500 milljónir tonna.
Samningur Aker Qrill og Tersan felur í sér umfangsmiklar breytingar á skipasmíðaverkefni sem var aflýst fyrir 18 mánuðum. Skipið verður að verulegu leyti aðlagað þörfum Aker QRILL og munu all mörg norsk tæknifyrirtæki njóta góðs af smíðinni sem birgjar. Að auki verður innleidd í skipið eldsneytissparandi tækni sem er í takt við umhverfisstefnu fyrirtækisins.
Tilraunaveiði á rauðátu við Ísland
Nýja skipið verður gert út undir norsku fiskveiðileyfi fyrir ljósátuveiðar samkvæmt CCAMLR-leyfi sem Suðurskautssáttmálin (Antarctic Treaty) heldur utan um. Ráðgert er að það hefji veiðar á þriðja ársfjórðungi 2026.
Norðmenn hafa lengi verið með umfangsmestu þjóðum í veiðum á Suðurhafsljósátu. Aker BioMarine fékk norsku skipasmíðastöðina Vard til að smíða fyrir sig sérhannað skip til veiða á ljósátu á þessum suðlægum slóðum. Skipið var Antarctic Endurance og var afhjúpað í janúar 2019. Það var fyrsta skipið sem hefur verið sérhannað og smíðað til veiða á ljósátu. Það er 130 metrar á lengd og með lest fyrir 3.150 tonn af afurðum. Smíði þess kostaði á þeim tíma andvirði tæpra 16,5 milljarða ÍSK og tæknilega getur það veitt allt að 500 tonn af ljósátu á dag. Árið 2022 veiddu tíu togarar undir fánum Chile, Kína, Suður-Kóreu, Noregs, Rússlands og Úkraínu 415 þúsund tonn af ljósátu.
Á árinu 2023 hafði Þekkingasetur Vestmannaeyja leyfi til tilraunaveiða á 1.000 tonnum af rauðátu en Hafrannsóknastofnun áætlar að árlegur lífmassi rauðátu við landið sé um 8 milljónir tonna og er massinn mestur við suðurströnd Íslands.