Norðmenn gera nú hosur sínar grænar fyrir veitingamönnum sem reka Fish&Chips staði í Bretlandi. Í næstu viku koma tíu breskri sigurvegarar í landskeppni um bestu Fish&Chips staðina í heimsókn til Noregs í boði norska útflutningsráðsins. Þar fá þeir fræðslu um þorsk- og ýsuveiðar Norðmanna í Barentshafi, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Fish&Chips er vinsælasti skyndirétturinn í Bretlandi og árlega framreiða 10 þúsund sölustaðir um 300 milljónir fish&chips máltíðir. Norðmenn eins og Íslendingar eru stórir birgjar á sjófrystum flökum sem framleidd eru um borð í frystitogurum eða stórum línuskipum sem vinna aflann um borð.
Norðmönnum er mikið í mun að viðhalda tengslum sínum og auka hlutdeild á breska markaðnum. Gestirnir munu meðal annar fá fræðslu um sjálfbærar veiðar Norðmanna og kynnast því hvernig veiðar og vinnsla frystitogara fer fram. Á vef samtaka norskra útvegsmanna segir að samskonar heimsókn breskra veitingamanna í fyrrahaust hafi skilað miklum árangri.
Í janúar 2012 keppa svo þessir 10 vinninghafar á landsvísu um það hvaða staður verði útnefndur fremsti fish&chips staður Bretlands.