Samið hefur verið um smíði á nýjum 75 metra flakafrystitogara fyrir norska útgerð og kemur hann í staðinn fyrir frystitogarann Ramon. Skipið verður smíðað í Armon skipasmíðastöðinni í Gijon á Spáni og verður tækjabúnaðurinn að mestu norskur.
Togarinn verður útbúinn til hefðbundinna hvítfiskveiða og rækjuveiða og mun geta veitt bæði með botntrolli og flottrolli.
Nýi Ramon er hannaður og útbúin öllum nýjasta búnaði frá Rolls-Royce Marine. Svo sem framdrifskerfi sem samanstendur af nýrri vél sem fyrirtækið er að kynna þessa dagana (Bergen B33:45), skrúfubúnaði með HSG kerfi (Hybrid Shaft Generator) sem gerir það kleift að keyra aðalvél með ásrafal inni og á hagkvæmasta hraða fyrir skrúfubúnað. Ásamt spilkerfi og fleiru.
Togarinn verður með frystilest sem er 1200 m³, mjöllest sem er 450 m³ og fystigetu upp á 90 tonn á sólarhring.
Áætlað er að afhenda skipið um mitt ár 2016.