Norðmenn og Grænlendingar hafa náð samkomulagi um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir fyrir árið 2014 samkvæmt því sem segir á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins.
Þorskkvóti Grænlendinga í Barentshafi verður 3500 tonn eða sá sami og árið 2013. Kvóti Grænlendinga í ýsu verður 950 tonn og 700 tonn í ufsa auk 250 tonna af meðafla í öðrum tegundum.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að Norðmenn megi veiða 900 tonn af blálöngu við Vestur-Grænland og 275 tonn við austurströnd landsins auk 160 tonn af lúðu. Þorskkvóti Norðmanna verður 1.200 tonn, kvóti af botnlægum karfa 400 tonn og leyfilegur meðafli er 150 tonn.
Noregur og Grænland hafa einnig ákveðið samvinnu í tengslum við rannsóknir í tengslum við breytingar á hitastigi sjávar og útbreiðslu fiskistegunda í hafinu umhverfis Grænland. Rannsóknirnar munu aðallega snúast um útbreiðslu nytjategunda eins og blálöngu, þorsks, karfa og makríls.