Norðmenn eru sú þjóð sem borðar mest af laxi miðað við höfðatölu eða 9,5 kíló á ári. Lax er sú fisktegund sem mest er borðuð þar í landi. En það gildir ekki um alla aldurshópa. Laxinn er vinsæll meðal barna og unglinga. Þorskur og annar hvítfiskur höfðar til hinna eldri og hvítfiskur nýtur meiri vinsælda meðal kvenna en karla.
Þetta kemur fram í grein í Fiskeribladet/Fiskaren. Fiskneysla á mann nam 33,6 kg árið 2013 í Noregi en var komin í 35 kg árið 2013 (reiknað í fisk upp úr sjó). Rannsókn árið 2010-2011 sýndi að meðalneysla fisks í Noregi var 310 grömm á viku hjá konum og 450 grömm hjá körlum. Norsk heilbrigðisyfirvöld mæla með 300-450 gramma fiskneyslu á viku.
En þrátt fyrir þessa fiskneyslu er kjöt sú fæðutegund sem Norðmenn borða mest af og mest er auglýst í fjölmiðlum. Kjötið er líka ódýrara en fiskur. Auk þess líta margir eldislax hornauga vegna þess hvernig sú vara er búin til. Neikvæð umræða í fjölmiðlum um eldislax virðist hafa áhrif. Árið 2011 sagðist einn af hverjum fjórum í neyslukönnun ekki vilja borða of mikið af eldislaxi en í fyrra var hlutfallið orðið einn af hverjum þremur.