„Við erum seglagerðarmenn,“ segir Tor Steinar Olsen, sölustjóri norska fyrirtækisins NWP. „Og það er bara þannig að þegar við sjáum vandamál þá búum við til lausnina.“

Hann kom hingað til lands í síðustu viku til að vera á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni IceFish 2017, þar sem hann kynnti nýstárlega aðferð við að halda lúsum frá eldislaxi

„Við höfum verið að framleiða hlífðarsegl umhverfis eldiskvíar, niður frá flotkraganum, og með þessu höldum við lúsinni frá fiskinum. Lúsin kemst ekkert inn í kvíarnar og þar að auki losna menn við þörunginn.“

Þetta er ekki alveg ný hugmynd, en NWP hefur til viðbótar þessu hannað búnað sem blæs lofti niður í kvíarnar, frá loftdælum í gegnum rör sem leidd eru niður í kvíarnar. Þetta kemur sjónum innan kvíanna á hreyfingu, sem er nauðsynlegt vegna þess að þegar búið er að afgirða kvíarnar með segldúkum þá verður súrefnið innan þeirra af skornum skammti.

Laxinum líður betur
„Vatnsgæðin verða misjöfn þannig að með því að koma sjónum á hreyfingu þá fer laxinum að líða betur. Hann fær meiri lyst og verður stærri. Við höfum gert rannsóknir á þessu og niðurstöðurnar eru þær að í þessum kvíum verður laxinn allt að tíu til fimmtán prósentum stærri en við venjulegar aðstæður,“ segir Tor.

Þetta segir hann allt hafa fengist staðfest með rannsóknum og árangurinn sé það góður að þetta muni skipta sköpum víða í laxeldinu.

„Þetta hefur svo sem oft verið reynt áður, en þetta er í fyrsta skipti sem við erum með búnað sem virkar svona vel. Í Noregi eru allir að fara út í þetta núna,“ segir hann.

Hann segir fyrirtækið leggja áherslu á að skoða aðstæður á staðnum vel áður en búnaðurinn er settur upp.

„Við förum allltaf á staðinn, skoðum straumana og dýptina og allar aðstæður.“

Þegar hann kom hingað ræddi hann við íslensk laxeldisfyrirtæki, meðal annars Arnarlax, og hreifst mjög af bæði vinnubrögðum og afstöðu þeirra til laxeldis.

Norðmenn ráku sig á
„Við tókum fljótt eftir því að hérlendis leggja allir áherslu á að huga vel að umhverfisþáttum áður en farið er út í að gera hlutina. Við höfðum verið lengi að í Noregi áður en við rákum okkur á alls konar umhverfisvandamál. Það varð langur lærdómsferill og dýrkeyptur. Við erum að verja stórfé núna í að bæta þarna úr.“

Hann segir það hafa verið góða upplifun að vera á sjávarútvegssýningunni og fá þá athygli alla sem þeim var sýnd.

„Við höfðum líka sérstaklega gaman af að fá sjávarútvegsráðherrann í heimsókn og forsetann. Það er gott að vera hérna þegar eitthvað stórt er að byrja. Þetta snýst auðvitað um að ná stjórn á umhverfinu og losna við lýsnar. En um leið snýst þetta um traust í samfélaginu. Og þá getur Jamie Oliver líka fengið laxinn sinn.“

[email protected]