Tvö norsk loðnuskip hafa leitað loðnu á Breiðdalsgrunni frá því í gær. Þar bárust fréttir af skuttogara sem fengið hafði loðnu í trollið. Norðmenn hafa hins vegar ekki fundið neina veiðanlega loðnu á þeim slóðum, að því er fram kemur í fréttum RÚV.

Norski loðuflotinn, sem legið hefur inni á Seyðisfirði undanfarna daga, hefur smám saman verið að tínast úr höfn frá því í morgun. Svo virðist sem tekin hafi verið sameiginleg ákvörðun um að fara á sjó, en sautján norsk loðnuskip hafa leyst landfestar og stefna á Austfjarðamið.

Aðstæður til leitar fyrir norðan og vestan land eru erfiðar sökum veðurs. Norðmönnum liggur nokkuð á því þeir hafa aðeins leyfi til loðnuveiða hér við land til 15. febrúar. Þeir íslensku útgerðarmenn sem rætt var við í morgun segja að staðan verði metin í dag. Þeir eru í nánu sambandi við norska flotann og framhaldið ræðst af árangri Norðmanna við leitina, segir ennfremur á vef RÚV.