Árið 2015 keypti hver Norðmaður að meðaltali 17,72 kíló af fiskmeti til neyslu í heimahúsum, að því er fram kemur í nýrri samantekt norska sjávarafurðaráðsins (Norges sjømatråd). Norðmenn keyptu fisk til heimabrúks fyrir 8,1 milljarð króna á árinu 2015 (121 milljarð ISK).

Örlítill samdráttur hefur orðið í sölu á fiski í tonnum talið sem helgast mest af því að meira er selt af flökum en minna af heilum fiski eða þverskornum. Kaupandinn tekur því ekki roð og bein með sér heim í sama mæli og áður.

Meira en helmingur af fiskinum er ferskur, um það bil þriðji hluti er frosinn, um 10% eru niðursoðin vara og aðeins 4% reyktur fiskur. Mikil aukning hefur orðið í sölu á ferskum fiskflökum en einnig hefur orðið mikil aukning í ferskum tilbúnum réttum. Norðmenn borða oftast þorsk, lax, rækju, makríl og ufsa í heimahúsum. Þegar eingöngu er litið á fersk flök eru laxaflökin vinsælust.