Samtök norskra útvegsmanna búast við stórauknum makrílkvóta til handa norskum skipum á næsta ári með hliðsjón af nýrri veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, segir Audun Maråk framkvæmdastjóri samtakanna í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren í dag.
Hann bendir á að meðan ekki sé í gildi neinn alþjóðlegur samningur um nýtingu makrílstofnsins hafi Noregur og Evrópusambandið skilið eftir 10% ráðlags heildarveiðikvóta til handa öðrum strandþjóðum. Það hafi verið gert á grundvelli sögulegrar skiptingar kvótans og fyrri samninga um hann.
„Þessi regla hlýtur einnig að gilda árið 2014 og lengur meðan ekki hefur verið gert alþjóðlegt samkomulag um skiptingu makrílsins,“ segir Maråk.
Hann bætir því við að þegar búið sé að taka 10% af nýjustu veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins standi eftir 800.000 tonn sem skiptist milli Noregs og ESB. Þar af fái Norðmenn 30% sem jafngildi 240.000 tonnum á næsta ári. Kvóti Norðmanna á yfirstandandi ári er 153.000 tonn.