Norsk loðnuskip hafa tilkynnt um 9 þúsund tonna loðnuafla í íslenskri lögsögu það sem af er vetri, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.
Norsk stjórnvöld fengu tilkynningu um fyrsta loðnuafla norsks skips við Ísland mánudaginn 16. janúar. Það var skipið Birkeland sem hafði klárað kvótann sinn, 760 tonn. Næstu daga voru fleiri skip melduð inn og í lok vikunnar höfðu veiðst 6.500 tonn. Í dag er aflinn kominn í rétt um 9 þúsund tonn.
Loðnan fékkst um 100 sjómílur austur af Langanesi. Aflinn fer aðallega í manneldisvinnslu í Noregi en restin til mjöl- og lýsisframleiðslu. Verðið sem greitt er fyrir loðnu í bræðslu er um 1,61 til 1,72 NOK, á kílóið eða 33 til 36 krónur íslenskar.