Norsk loðnuskip hafa veitt 298 tonn af loðnu hér við land það sem af er, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins. Um þetta leyti í fyrra höfðu norsk loðnuskip veitt um 20 þúsund tonn af loðnu á Íslandsmiðum þannig að ólíku er saman að jafna.

Loðnan var stór og falleg í fyrra og að mestu landað til manneldisvinnslu í Noregi. Meðalverðið þá á þessum 20 þúsund tonnum var 2,89 krónur norskar á kíló, eða um 53,5 krónur íslenskar miðað við núverandi gengi.

Loðnan í ár er smærri og meðalverðið er 2 krónur norskar á kíló á þeim fáu tonnum sem veiðst hafa, eða 37 krónur íslenskar. Norsku skipin hafa landað afla sínum aðallega á Íslandi til manneldisvinnslu.