Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um tilraunaveiðar á túnfiski. Norski túnfiskkvótinn er tæp 37 tonn og eru tvö veiðileyfi í boði, annað fyrir nótaskip og hitt fyrir línuskip.

Þetta er annað árið í röð sem gefinn er út túnfiskkvóti í Noregi og freistaði einn nótabátur gæfunnar í fyrrasumar og fór fjórar veiðiferðir úti af strönd Suður-Noregs en fékk engan afla.

Á árum áður voru miklar túnfiskveiðar stundaðar við Noreg. Þær lögðust af upp úr árinu 1985 og hafa ekki verið stundaðar síðan, þar til gefinn var út kvóti í fyrra og aftur núna.