Tölur frá Norska sjávarafurðaráðinu (Norges sjømatråd) sýna að Norðmenn fluttu út lax og laxaafurðir fyrir 14 milljarða NOK á fyrri helmingi ársins 2012 sem samsvarar um 296 milljörðum íslenskra króna.
Þetta er einum milljarði lægra útflutningsverðmæti en á sama tíma í fyrra, eða um 6% samdráttur í verðmæti. Hins vegar jókst magnið um 29% og nam 466 þúsund tonnum.
Metframleiðsla á eldislaxi hefur valdið því að verðið hefur lækkað, segir á vef norska sjávarafurðaráðsins. Verð á eldislaxi var í hæstu hæðum í upphafi síðasta árs en fór fljótlega lækkandi.
Norskir laxeldismenn hugga sig þó við það að þótt verðið hafi lækkað hefur eftirspurn eftir atlantshafslaxi aldrei verið meiri en nú og hún fer vaxandi.
Á fyrri árshelmingi 2012 var verðið 27,94 NOK á kíló sem samsvarar 590 krónum íslenskum. Þetta er 11,15 NOK lægra verð en á sama tíma í fyrra. Í júní í ár var meðalverðið 26,80 NOK sem er 5,91 NOK lægra en í sama mánuði í fyrra.