Norsk fisksölufyrirtæki hafa fundið leið til þess að fara framhjá innflutningsbanni Rússa með því að senda fiskafurðirnar í staðinn til Hvíta-Rússlands, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum fis.com.
Útflutningur á laxi í austurveg hrundi í kjölfar þess að bannið var tilkynnt en í fyrstu viku september þrefaldaðist salan frá Noregi til Hvíta-Rússlands. Talið er að laxinn sé flakaður í Hvíta-Rússlandi og svo fluttur á rússneskan markað.
Rússnesk heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist við með því að tilkynna að innflutningur á ákveðnum fiskafurðum og mjólkurafurðum frá Hvíta-Rússlandi kunni að verða stöðvaður vegna gruns um að viðkomandi vörur standist ekki heilbrigðiskröfur.
Rússar eru á verði á fleiri vígstöðvum því rússneskir heilbrigðisfulltrúar stöðvuðu för nokkurra gáma af fiski frá Spáni og Noregi sem reynt var að flytja til Krímskaga í gegnum Úkraínu.