Norðmenn hafa gert tollasamning við Evrópusambandið sem auðveldar þeim að selja sjávarafurðir inn á markað ESB-ríkjanna. Frá þessu er greint á vef norska síldarsamlagsins.
Markaðurinn í ESB er ákaflega þýðingarmikill fyrir norskar sjávarafurðir. Norðmenn fengu tollfrjálsa kvóta í ESB með samkomulagi sem gert var á síðasta ári. Fyrir skömmu var formlega undirritað nýtt samkomulag sem auðveldar Norðmönnum enn frekar aðgengi að markaðinum í ESB.
Samkomulagið felur í sér að Norðmenn fá nýja tollfría kvóta fyrir flök og unnar afurðir eins og frosinn makríl og ferska síld. Þá verður núverandi tollfrjáls kvóti fyrir krydd- og edikssíld aukinn um nær 50%. Samningstíminn er lengdur úr fimm árum í sjö.
Áður en samkomulagið tekur gildi þarf að samþykkja það í Stórþinginu norska og hjá ríkjum Evrópusambandsins.