Loðnuveiðum Norðmanna er að ljúka við Ísland að þessu sinni. Samkvæmt upplýsingum á vef norska síldarsamlagsins hafa norsku skipin tilkynnt um alls 45.000 tonna afla á þessari vertíð, en heildarkvóti þeirra við Ísland er 50.900 tonn.
Eftir að loðnukvótinn var aukinn á dögunum fékk hver bátur 23% kvótaaukningu. Í síðustu viku veiddu norsku skipin 17.000 tonn og fóru 10.300 tonn í manneldisvinnslu en 6.700 tonn í bræðslu. Megnið af afla síðustu viku fór til kaupenda á Íslandi (12.000 tonn) en afgangurinn til Noregs, Danmerkur og Færeyja.
Fyrsta norska loðnuskipið hefur byrjað veiðar í Barentshafi. Það er Trönderbass sem fékk 500 tonn í þremur köstum áður en óveðrið Ole skall á. Loðnan var smærra lagi, 55 stk/kg.