Makrílvertíð Norðmanna er að ljúka. Norsk skip eiga nú óveidd tæplega 20.000 tonn af 290.000 tonna kvóta. Íslendingar hafa veitt sín 154.000 tonn.
Á vefnum Undercurrentnews.com kemur fram að makrílafli Færeyinga í ár sé 130-135 þús. tonn og því 25 þús. tonn eftir af kvótanum. Þá kemur fram að Skotar hafi veitt 177.000 tonn en eigi 98.000 tonn óveidd. Írar hafa veitt 57.000 tonn og eigi 48.000 tonn eftir af kvóta sínum. Sagt er að Rússar hafi lokið veiðum og veitt 105.000 tonn. Áður hefur komið fram að aflinn úr grænlensku lögsögunni var 78.000 tonn.
Samtals hafa þessar þjóðir veitt um tæplega eina milljón tonna það sem af er árinu og eiga óveidd um 170.000 tonn af kvótum sínum. Þá eru ótaldar aðrar ESB-þjóðir en Skotar og Írar en afli þeirra er ekki tilgreindur í fréttinni. Þess má geta að Danir eiga 46.000 tonna makrílkvóta á þessu ári, Hollendingar 48.000, Eistar 47.000 tonn, Þjóðverjar 32.000 tonn og Frakkar 24.000 tonn en aðrar þjóðir mun minna.
Í heild nemur makrílkvóta ESB-þjóðanna 613.000 tonnum.