Guðjón Már Sigurðsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir erfitt að meta áhrif langreyðastofnsins á afkomu annarra nytjastofna í hafinu hér við land.
Að sögn Guðjóns eru áætlað að um 36 þúsund langreyðar séu vestan við Ísland. Að meðtöldum þeim stofni sem haldi til austan við landið telji sé alls um að ræða yfir 40 þúsund hvali. Um hugsanlega áhrif langreyðastofnsins á aðra nytjastofnanir segir Guðjón slíkt þá mundu vera á óbeinan hátt.
„Hann lifir aðallega á ljósátu og annarri átu. Það væru þá samkeppnisáhrif á þá síld og makríl einna helst. En það er mjög erfitt að meta þau. Þetta þarf að setja í fjölstofna líkön en við erum ekki alveg þar,“ segir Guðjón.
Magn af átunni segir Guðjón það mikið að nóg sé til skiptanna. „Það er alveg nóg af henni, að minnsta kosti á þessum helstu slóðum. Það væru þá frekar einhver mjög staðbundin áhrif ef það er mikið af hval á litlu svæði,“ segir hann.
Veiddar voru 148 langreyðar hér við land í fyrra. Að sögn Guðjóns hafa veiðar á langreyði þannig engin áhrif á langreyðastofninn sjálfan, aðra nytjastofna við landið eða lífríkið í hafinu yfirhöfuð. „Þetta er í þeim skala að þessi 140 dýr skipta frekar litlu máli í stóru myndinni. Stofninn er það stór að þetta er aðeins dropi í hafið,“ segir hann.
„Þetta er mjög varkár ráðgjöf og sennilega með varkárari ráðgjöf sem við veitum,“ svarar Guðjón spurður hvort langreyðastofninn þyldi meiri veiðar en leyfðar hafa verið. „Þannig að stofninn ætti alveg að þola þessi 140 dýr leikandi.“