Mikil umræða hefur verið um brottkast á fiski á miðum Evrópusambandsins upp á síðkastið og hefur fiskimálastjóri ESB boðað tillögur um breyttar reglur sem banna eiga slíkt athæfi. Eitt dæmi um brottkastið er frásögn fjölmiðla af því að tvö skosk togskip með tvíburatroll hafi í síðustu viku fengið sem svarar 1.000 kössum af þorski. Vandinn var hins vegar sá að þorskkvóti skipanna jafngilti aðeins afla í 100 kassa og því var þorski sem komst í 900 kassa fleygt aftur í hafið. Reyndar var árskvóti skipanna tveggja af þorski ekki meiri en svo að þarna fór hann allur í einu kasti.
Atvikið átti sér stað í Norðursjónum og voru skipin á höttunum eftir ýsu og lýsingi en fengu þorsk í staðinn. Eina leiðin til þess að komast hjá brottkastinu á þorskinum er að leigja til sín þorskkvóta en sjómennirnir benda á að erfitt sé að fá leigukvóta og verðið á honum sé litlu lægra en fæst fyrir þorskafla á uppboðsmarkaðinum í Peterhead. Þeir halda því einnig fram að vaxandi þorskstofn hreki aðrar tegundir burt og því sé erfitt að stunda veiðar á þeim tegundum sem bátarnir hafi nægan kvóta fyrir.
Áætlað er að um 30% af öllum þorski sem veiðist í Norðursjó, Skagerak og Kattegat sé fleygt aftur í sjóinn.