Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segi að álit umboðsmanns um að hún hafi ekki farið að lögum með hvalveiðibanni í sumar gefi ekkert tilefni til viðbragða.

Engu að síður ætli hún að „fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða“. Einnig ætli hún að fela ríkislögmanni aðm „leggja mat á framkomið erindi Hvals hf. þar sem félagið óskar eftir viðræðum við ríkið um mögulegt uppgjör vegna álitsins,“ eins og segir í færslu ráðherrans á Facebook sem hér má lesa í heild.

Færsla Svandísar í heild

„Álit umboðsmanns Alþingis hefur verið mér mikið umhugsunarefni. Bæði sem stjórnmálamaður og embættismaður. Það er hverjum ráðherra þungbært þegar álit umboðsmanns leiðir í ljós að ráðstafanir séu ekki eins og best verður á kosið. Í þessu tilviki að útgáfa reglugerðar um hvalveiðar hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum eins og atvikum var háttað í júní. Einnig að aðdragandi og undirbúningur reglugerðarinnar hafi ekki uppfyllt kröfur um meðalhóf.

Að baki útgáfu reglugerðarinnar á sínum tíma var enginn illur ásetningur. Mér gekk ekkert annað til en að fara að lögum og þar á meðal og ekki síst mikilvægum lögum frá 2013 um að okkur beri að koma vel fram við dýr.

Í afar þröngri stöðu í tíma og rúmi þar sem ég fékk í hendur álit fagráðs um dýravelferð sem taldi að veiðar á hval gætu ekki samræmst dýravelferðarlögum fól ég ráðuneyti mínu að gera tillögur að viðbrögðum. Ég fór þá að öllu leyti að ráðgjöf ráðuneytisins og undirritaði reglugerð um frestun á upphafi vertíðarinnar þar sem unnt væri að nýta tímann til að m.a. kanna tillögur leyfishafans um það hvort og þá hvernig bæta mætti framkvæmdina. Ég hef ekki enn heyrt þá rödd sem telur að það sé réttlætanlegt að stunda ómannúðlegar veiðar á hvölum. Og umboðsmaður tekur raunar undir það að málefnalegt geti verið að líta til sjónarmiða um dýravelferð við reglusetningu á grundvelli hvalveiðilaganna. En nú er álit umboðsmanns komið fram og ég hlusta á þau sjónarmið sem þar koma fram og tek þau til mín.

Ráðuneyti mitt hefur rýnt álitið og lögfræðileg niðurstaða þess er sú að það gefi ekki tilefni til sérstakra viðbragða. Það er í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns en hann beinir ekki sérstökum tilmælum um úrbætur til mín, umfram það að hafa sjónarmiðin sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar. Engu að síður hef ég ákveðið eftirfarandi:

  1. Að fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, og valdheimildir stjórnvalda á þeim grundvelli. Álitsgjafi verði jafnframt beðinn um að gera tillögur að úrbótum eftir því sem við á, og eftir atvikum tillögur að breytingum á lögum.
  2. Að fela ríkislögmanni að leggja mat á framkomið erindi Hvals hf. þar sem félagið óskar eftir viðræðum við ríkið um mögulegt uppgjör vegna álitsins.

Ég gríp til þessara skýru viðbragða í ljósi þess að mikilvægt er að stjórnvöld beri virðingu fyrir eftirlitsstofnunum og sýni það í verki. Umboðsmaður Alþingis gegnir mikilvægu hlutverki í eftirliti með stjórnsýslu ríkisins í okkar lýðræðissamfélagi,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á Facebook.

Tillaga um vantraust lögð á Alþingi í dag

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur boðað að í dag muni hún leggi fram á Alþingi tillögu um vantraust á Svandísi vegna ákvarðana hennar í umræddu máli í ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að ráðherrann hafi ekki farið að lögum