ff
Mikill niðurskurður á kvótum við sandsílaveiðar leiðir til þess að aflaverðmæti danskra fiskiskipa lækkar verulega í ár eftir tvö góð og hagkvæm ár, að því er fram kemur á vefnum nordvestnyt.dk
Brúttóhagnaður útgerðarinnar árin 2010 og 2011 var 900 milljónir króna hvort ár (18 milljarðar ISK) en búist er við því að hann fari niður í 600 milljónir í ár (12 milljarða ISK), samkvæmt nýrri skýrslu frá matvælahagfræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla.
Auk samdráttar í sandsílaveiðum er einnig búist við minni makrílveiði.
Þá hafa verð lækkað á þorski, flatfiski, síld og humri um milli 5 og 20%.
Því er spáð að aflaverðmæti danskra fiskiskipa á árinu 2012 verði 2,7 milljarðar (55 milljarðar ISK) sem væri 16% samdráttur frá árinu áður.
Framkvæmdastjóri danskra útvegsmanna tekur undir það með skýrsluhöfundum að tekjur lækki vegna minni sandsílaveiða en hann er ósammála þeim um verðþróun á þorski. Þvert á móti segir hann að búist sé við því að verð á matvöru hækki yfirleitt á heimsmarkaði og það sama gildi um fisk til manneldis.