Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Akraborg ehf. á Akranesi uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottunin sem Akraborg hlýtur tekur til framleiðslu og sölu á niðursoðinni lifur auk afurða unnum úr hrognum og svilum úr vottuðum þorski sem veiddur er á Íslandsmiðum.

Akraborg ehf. er fiskvinnslufyrirtæki á Akranesi sem framleiðir ýmsar vörur úr íslensku sjávarfangi, einkum úr þorski, en einnig úr öðrum tegundum svo sem skötusel, loðnu og smásíld. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á niðursoðinni þorskalifur. Hráefna sinna aflar Akraborg ehf. ferskra hjá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um landið, meðal annars hjá fyrirtækjum sem veiða úr vottuðum sjálfbærum nytjastofnum. Hjá Akraborg starfa um 30 manns og eru vörur þess seldar víða um heim, m.a. í Evrópulöndum, Asíu og Norður- Ameríku.

Rolf Hákon Arnarson framkvæmdastjóri Akraborgar segir MSC vottun mikilvægan áfanga í sölumálum fyrirtækisins. „Eftirspurn eftir MSC vörum hefur aukist jafnt og þétt undanfarið og svo komið að sumir kaupendur neita að kaupa nema MSC vottun sé til staðar. Vottunin er því stór áfangi fyrir Akraborg og mun verða okkur mikill styrkur til framtíðar.“