Fyrir skemmstu gáfu norsk stjórnvöld í samráði við rússnesk stjórnvöld út þorskkvóta í Barentshafi. Norsk-rússneska sjávarútvegsnefndin, sem skipuð er sérfræðingum á sviði hafrannsókna, hafði mælt með að niðurskurðurinn yrði 31% sem hefði þýtt að heildarkvótinn í Barentshafi hefði orðið 311.500 tonn á næsta ári en stjórnvöld fóru ekki að ráðgjöfinni og ákváðu niðurskurð upp á 25%. Verður heildarkvótinn því 340.000 tonn á næsta ári.
Í Smugusamningnum, þríhliða samningi Íslands, Noregs og Rússlands, er Íslendingum tryggð 1,86% af heildarkvótanum en samningurinn kveður jafnframt á um að veiðar Íslendinga falli niður fari heildarkvótinn undir 350.000 tonn á ári. Norskir útgerðarmenn hafa þrýst á um að Smugusamningnum verði sagt upp í ljósi þessa.
Frank Bakke-Jensen, fiskistofustjóri Noregs, var á Íslandi nýlega og sótti Sjávarútvegsráðstefnuna í Hörpu. Í samtali við blaðamann Fiskifrétta sagði hann meðal annars þetta:
„Niðurskurðurinn í Barentshafi mun hafa áhrif á fiskveiðar Íslendinga að því leyti að hlutur þeirra minnkar. En í ljósi áskorana á sviði alþjóðasamstarfs er ég þeirrar skoðunar að nú sé ekki rétti tíminn til að semja upp á nýtt. Miðað við ástand heimsmála og erfiðra samskipta Noregs og Rússlands er skynsamlegast að standa við það samkomulag sem nú er í gildi. Þetta er mín ráðlegging en ákvarðanatakan er hjá stjórnmálamönnum,“ segir Bakke-Jensen.
Farsælt samstarf við Rússa í fiskveiðistjórnun
Hann bendir á að þrátt fyrir stirt samband milli norskra og rússneskra stjórnvalda hafi löndin átt í farsælu samstarfi þegar kemur að stjórnun fiskveiða í Barentshafi og sameiginlegum þorskstofni þjóðanna þar. Hrygningarsvæði þorsks er einkum innan efnahagslögsögu Rússa í Barentshafinu. Þaðan heldur þorskur í fæðuleit vestur á bóginn. Samstarf landanna, sem hefur staðið yfir í meira en 50 ár, felst ekki síst í því að stýra veiðunum með þeim hætti að þær fari fram Noregsmegin í Barentshafinu þar sem fiskurinn er stærri og verðmætari. Rússar hafi skýran hag af þessu samkomulagi og um leið er dregið úr smáfiskadrápi í rússneskri lögsögu.
„Þetta er helsta ástæðan fyrir mikilvægi þess að við höldum samskiptum og samkomulagi við Rússa þótt blikur séu á lofti á öðrum sviðum.“
Rússneskum skipum er óheimilt að nota hafnir í Noregi að þremur norðlægum höfnum undanskildum þar sem þeim er leyft að landa afla, þ.e. í Kirkenes, Tromsø og Båtsfjord. Þessar landanir eru tilslakanir af hálfu Norðmenn og til þess gerðar að Rússar haldi samkomulag sitt við þá um veiðar í Barentshafinu og hefji ekki veiðar á þorski á uppeldisstöðvum þorsks í eigin lögsögu.
Strandríkin verða að semja
Árum saman hefur farið fram gríðarleg ofveiði á deilistofnum síldar, kolmunna og makríls þar sem strandríkin sem hlut eiga að máli komast ekki að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig eigi að skipta milli sín ráðlögðum heildarafla frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES. Þjóðirnar, sem eru Noregur, Ísland, Færeyjar, Evrópusambandið og Bretland, hafa eins og áður komist að samkomulagi um að virða ráðgjöf ICES en árangurslausir fundir hafa verið haldnir um skiptinguna milli þjóðanna. „Strandríkin verða að komast að samkomulagi sín á milli. Ég hef ekki tekið þátt í þessum samningum og veit því ekki hvort ástæða er til bjartsýni að þessu sinni. En ég held að á varasömum tímum eins og við lifum núna sé mikilvægt að stjórnmálamenn sjái nauðsyn þess að þjóðir sýni hver annarri virðingu. Það reynir á alþjóðasamninga þessi dægrin og sjaldan hefur verið meiri þörf fyrir almenna skynsemi og virðingu milli þjóða til að treysta lýðræðislegt skipulag. Ég vona að strandríkin komist að innbyrðis samkomulagi svo að sjálfbærni í veiðum þessara fiskstofna sé ekki ógnað,“ sagði Bakke-Jensen.
Fyrrum varnarmálaráðherra
Frank Bakke-Jensen er 59 ára gamall, fæddur í Båtsfjord, 2.500 manna bæjarfélagi, í Finnmörku í Norður-Noregi, þar sem lífið snýst um fiskveiðar og vinnslu. Hann var kjörinn bæjarstjóri Båtsfjord 2007 og gegndi þeirri stöðu fram til 2009 þegar hann bauð sig fram til setu á norska Stórþinginu fyrir íhaldsflokkinn Høyre. Hann var þingmaður frá október 2008 til loka september 2021. Hann var ráðherra norræns samstarfs í ríkisstjórn Ernu Solberg 2016- 2018, ráðherra Evrópumála í sömu ríkisstjórn frá 2016 til 2017 og varnarmálaráðherra frá 2017 til 2021. Hann lét af þingmennsku 2021 og tók það sama ár við sem forstjóri norsku Fiskistofunnar.