Spánn, Frakkland, Bretland og Japan eru meðal þeirra fiskveiðiþjóða sem ríkisstyrkja úthafsveiðar verksmiðjutogara með myndarlegum niðurgreiðslum á eldsneytiskostnaði. Þetta kemur fram í athugun Alþjóða úthafsráðsins, Global Ocean Commission.

Í skýrslu Alþjóða úthafsráðsins segir að niðurgreiðslur á eldsneytiskostnaði stuðli að ofveiði á túnfiski og öðrum fisktegundum í úthöfunum og ógni fæðuöryggi heimsins.

Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til þess að draga úr niðurgreiðslum og afnema þær að fullu á næstu fimm árum. Þetta muni draga úr rányrkju og stuðla að viðgangi fiskstofnanna.

Alþjóða úthafsráðið hvetur einnig stjórnvöld víða um heim til að beita sér gegn ólöglegum fiskveiðum og grípa til aðgerða til að draga úr notkun plastefna til að draga úr mengun sjávar.

David Miliband, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, er annar tveggja ritara ráðsins. Hann segir í samtali við The Guardian að unnið sé mikið ógagn gagnvart komandi kynslóðum með niðurgreiðslum á eldsneyti til verksmiðjutogaraútgerðar í úthöfunum. Hann segir að þessar veiðar fari fram á hafsvæði sem fyrir 35-40 árum var ósnortið af manna völdum.

Samkvæmt skýrslunni eru spænsk stjórnvöld fremst í flokki þegar kemur að niðurgreiðslum á eldsneyti. Framlag þeirra til útgerðarinnar nam 1.073 milljónum dollara, rúmum 121 milljörðum ÍSK, en aflaverðmæti flotans á sama tímabili nam 2.625 milljónum dollara, um 296 milljörðum ÍSK. Niðurgreiðslur bandarískra stjórnvalda nam 137 milljónum dollara, 15,5 milljörðum ÍSK, á sama tíma og aflaverðmæti var 368 milljónir dollara, 41,5 milljarðar ÍSK.

Sjá nánar hér .