Fyrirtækið Seachill í Bretlandi, sem er í eigu Icelandic Group, setti fyrir rúmum tveimur árum á markað vörulínu undir heitinu ,,Saucy Fish“ sem náð hefur ótrúlegum vinsældum. Um er að ræða pakkningar með ferskum fiskbitum með sósu sem tilbúnir eru til eldunar. Saucy Fish er orðið stærsta vörumerkið fyrir ferskan fisk í Bretlandi.

Í frétt á vefnum Undercurrentnews.com segir að alþjóðleg verslunarkeðja með starfsemi í Kína hafi áhuga á að prófa þessa vöru á markaði þar í landi. Magnús Bjarnason forstjóri Icelandic Group vill ekki upplýsa í samtali við vefinn um hvaða verslunarkeðju sé að ræða en fram kemur í fréttinni að Walmart, Carrefour og Metro séu stærstu alþjóðlegu matvörukeðjurnar með starfsemi í Kína.

Seachill er að undirbúa útrás með Saucy Fish vörulínuna til Írlands og Noregs en áður hefur hún verið sett á markað í Singapore. Þá er fyrirhugað að hasla vörunni völl í Bandaríkjunum.

Hins vegar kemur einnig fram að Tesco verslunarkeðjan í Bretlandi sem kynnti þessa vörulínu upphaflega á undan öðrum bjóði hana ekki lengur en hafi markaðssett í staðinn eigin vörulínu af þessu tagi undir heitinu ,,Fish in a Flash”.