,,Stöðu í rekstri þessara fyrirtækja í dag má líkja við neyðarástand. Aflaheimildir sumra skipanna eru uppurnar og við það að klárast hjá öðrum. Ástæður þess eru þær að framboð aflamarks á leigumarkaði hefur snarfallið og verð margfaldast. Stefnir allt í miklar uppsagnir starfsfólks sem þegar eru hafnar.”
Svo segir í ályktun fundar útgerðarmanna sem eiga það sameiginlegt að byggja rekstur sinn að verulegu leyti á leigu veiðiheimilda. Fundarmenn eru flestir aðilar í LÍÚ og miðaðist fundarboðið við útgerðir sem hafa leigt til sín 100 tonn eða meira á ári. Fram kemur að fimmtíu útgerðir falli undir þessa flokkun og hjá þeim starfi um 800 manns.
Bent er á að leigumarkaðurinn sé nánast frosinn, leiguverð ýsukvóta hafi hækkað um 450% og þorskleigukvóta sé ekki að fá.
Fundarmenn leggja til að þorskkvótinn verði aukinn um 40.000 tonn, ýsa og ufsi um 10.000 tonn hvort tegund og einnig verði leyfð aukin veiði á löngu, keilu og skötusel.
,, Þetta er bráðavandi sem virðist hafa gleymst í pólitískri umræðu um aðra þætti fiskveiðistjórnunarinnar. Málið þolir enga bið enda rekstur fjölda fyrirtækja og störf hundruða manna í húfi,” segir Arnar Atlason útgerðarmaður Sæbergs HF í Hafnarfirði í samtali við Fiskifréttir.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.