Netabáturinn Geir ÞH frá Þórshöfn hefur lokið veiðum á netavertíðinni í Breiðafirði og fer nú á net og snurvoð fyrir austan. Sigurður Ragnar Kristinsson skipstjóri segir veiðarnar hafa gengið vel á þessari vertíð og eins og jafnan sé allt vaðandi í fiski á þessum tíma. Gert var út frá Grundarfjarðarhöfn eins og undanfarnar vertíðir.
„Við lentum strax í austanstormi í Breiðafirðinum og biðum við bryggju fyrsta einn og hálfan sólarhringinn áður en við lögðum net. Við drógum svo fyrst 7. febrúar. Það var leiðindatíðarfar þarna í febrúar, stanslaus lægðagangur og sperringur upp á hvern einasta dag. En þetta gekk samt ágætlega eins og alltaf í Breiðafirðinum. Það er hægt að ganga að því vísu að vera í góðu fiskiríi þarna.“
Stærri dagar í mars
Sigurður segir þó heldur hafa verið rólegra yfir veiðunum út af Grundarfirði en mörg undanfarin ár. Það hafi komið færri skot í veiðina eftir að síldin gekk út. Engu að síður náðust 220 tonn í 19 róðrum í mánuðinum.
„Það var ekki fyrr en komið var fram í mars að við fengum stærri daga. Meðan síldin var ennþá inni í Kolgrafarfirði og Grundarfirði lentum við stundum í mokveiði í byrjun febrúar þegar við vorum að koma vestur. Það má því segja að ástandið sé að verða eðlilegra núna eftir að hafa verið í raun frekar óeðlilegt nokkur ár í röð.“
Sigurður segir að það hafi verið síld í þorskinum og síðustu tvo daga varð vart við melta loðnu í honum. Menn töldu líka að einhver síld hefði gengið út úr Kolluál. Áhöfnin á Geir ÞH varð ekki vart við loðnu á þessum slóðum að öðru leyti en eitthvað hafi aðrir séð hana vestast á Snæfellsnesinu. Veiðin í mars í 12 róðrum var 290 tonn og alls var vertíðin í Breiðarfirði því upp á 510 tonn í 31 róðri.
100 tonna byggðakvóti
Varðandi loðnubrestinn nú segir Sigurður þetta hafa gerst áður. „Það er ekki eins og himinn og jörð séu að farast út af þessu. Ég held að loðnan sé á síðustu árum farin að hrygna mun víðar en hún gerði áður."
Fyrir norðan gangi hún upp til hrygningar í smátorfum og í öllum fjörðum og víkum sé að finna einhverja loðnu. Munurinn er sá að stóru göngurnar láti á sér standa. Í sjómannaverkfallinu síðasta hafi Norðmenn til dæmis fiskað ágætlega í nótina grunnt með Norðurlandi. En fyrst og fremst er skýringin á þessu, að mati Sigurðar, hækkandi sjávarhiti.
„Vertíðin var ágæt núna þótt tíðarfarið í febrúar hafi verið leiðinlegra en oft áður og rólegri veiði inn með nesinu en fínasta veiði reyndar út af Rifi. En heilt á litið eru ekki sömu lætin og áður. Fiskurinn var í smærri kantinum í fyrra en á þessari vertíð hékk vigtin á slægðum fiski í um átta kílóum. Undir lokin var þetta ekki eintómur boltafiskur heldur meira af blönduðum fiski, 6-8 kíló.“
Geir ÞH verður á netum fyrir austan við veiðar á 100 tonna byggðakvóta sem verður unninn í Ísfélaginu á Þórshöfn. Síðan verður farið á dragnót fram að hrygningarstoppi og síðan ætla menn að reyna fyrir sér í kola og steinbít og fleiri tegundum í Þistilfirði. Síðustu þrjú árin hefur síðan verið farið á ýsunet í lok hrygningarstopps og stefnt er að því að þær veiðar standi yfir í um tvær vikur.