Ágæt veiði hefur verið hjá netabátnum Friðriki Sigurðssyni ÁR sem var í sínum næstsíðasta róðri fyrir útgerðina Grímsnes í Njarðvík sem hefur leigt skipið að undanförnu frá Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn. Sigurður Harðarson skipstjóri segir að þeir hafi verið í ekta vertíðarfiski á mjög grunnu vatni með frekar fáum netum.
Grímsnes gerði út samnefndan bát sem eyðilagðist í hörmulegum eldsvoða í Njarðvík í apríl 2023. Útgerðin hefur leigt Friðrik Sigurðsson ÁR af Hafnarnesi VER en til stendur að hann fari í netarall Hafrannsóknastofnunar sem hefst innan tíðar.
„Við erum búnir að vera að síðan 17. janúar með hléum á milli út af brælum. En heilt yfir hefur þetta gengið vel og við höfum verið að eltast við stóra fiskinn. Við höfum farið grunnt eftir honum alveg upp að sex föðmum í Straumsvíkinni. Stærsti fiskurinn heldur sig grunnt og er löngu byrjaður að hrygna. Það fór síðan aðeins að draga úr veiðinni í Straumsvík á sunnudag og núna erum við á Syðra-Hrauni,“ sagði Sigurður þegar rætt var við hann í byrjun vikunnar.
„Við erum að draga tíu tommu riðil og veiðin er rétt þokkaleg núna,“ segir Sigurður. Um er að ræða boldangsþorsk, 7-8 kg að meðalþyngd.
Tólf tonn á dag
Útlit var fyrir að 7-8 tonn væru í netunum sem voru lögð um fimmleytið að morgni mánudags. Menn fengu sér svo kaffi og byrjuðu í framhaldinu að draga. Menn vilja fá fisk inn sem ferskastan í netin og öllu er landað hjá Grímsnesi í Njarðvík. Fiskurinn gerist vart ferskari. Tíu manns eru í áhöfn bátsins, þar af fjórir átján ára piltar sem Sigurður segir að fái hæstu einkunn fyrir sín fyrstu skref í sjómennskunni sem netasjómenn. Menn hafi orðið talsvert mikið varir við hval og á mánudagsmorgun lögðu þeir netin í loðnuflekkum í Syðra-Hrauninu. „Þetta eru litlir flekkir hér og þar. Fiskurinn er fullur af loðnu og augljóslega nóg æti hérna því hérna er líka sandsíli,“ segir Sigurður.

Í síðustu fimm löndunum var Friðrik Sigurðsson með að meðaltali um tólf tonn af þorski eftir daginn. Framundan hjá Sigurði er smá pása og síðan taka strandveiðarnar við. Hann gerir út bátinn Unu KE til strandveiða og hefur gert það mörg undanfarin ár. Hann segir auðvitað miklu breyta ef fastir 48 dagar verða til strandveiða en kveðst eiga eftir að sjá það gerast.