Um helgina var nýr norskur línu- og netabátur, Leinebris, sjósettur í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Báturinn er með nýrri útgáfu af dráttarbrunni sem hægt er að draga línu og net í gegnum.

Það er ekki nýtt að lína sé dregin í gegnum brunn í miðju skipi (línubáturinn Anna EA er t.d. þannig útbúinn, eitt íslenskra skipa) en að sögn útgerðarmanns Leinebris „hefur enginn dregið net í gegnum dráttarbrunn hingað til svo þar erum við í fararbroddi.“

Leinebris er 58 metra langur og 13,4 metrar á breidd. Rúm er fyrir 24 manna áhöfn. Þá er nýtt lag á skrokk bátsins hannað þannig að mótstaðan sé sem minnst án þess að það komi niður á sjóhæfni og rýmisþörf, segir í frétt á vef samtaka norskra útgerðarmanna.