Þorskneysla er mikil á Spáni og hefur aukist eftir því sem meira er flutt inn af ferskum þorskafurðum. Norðmenn hafa hins vegar áhyggjur af því að saltfiskur hefur tapað markaðshlutdeild. Söluátak þurfi til svo saltfiskurinn endi ekki sem jaðarframleiðsla fyrir eldri borgara.
Þetta kom fram nýlega í grein í norska blaðinu Fiskeribladet/Fiskaren þar sem þeirri spurningu var varpað fram hvort Spánverjar nenntu ekki lengur að borða saltfisk. Þar segir að Spánverjar borði æ minna af saltfiski og það ætti að valda áhyggjum. Þrátt fyrir að 43% Spánverja segi í markaðskönnunum að þeim þyki saltfiskur góður þá ratar hann æ sjaldnar á diskinn hjá þeim.
Saltfiskur er aðallega á borðum þeirra Spánverja sem komnir eru til ára sinna. Um 37% af neytendum á aldrinum 20 til 34 ára segjast aldrei borða saltfisk. Reyndar hefur dregið úr neyslu á saltfiski hjá eldri hópum neytenda.
Ástæðan fyrir samdrætti í sölu á saltfiski er sögð sú að fiskurinn sé alla jafna ekki á boðstólunum í stórmörkuðum. Fara þurfi í sérverslanir til að kaupa hann. Þá taki miklu lengri tíma að elda saltfisk en ferskar þorskafurðir og í hraða hversdagsins verði saltfiskurinn því útundan.