Ársfundur Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, NEAFC, var haldinn í London 14.-18. nóvember. Tillaga Íslands um stöðvun veiða á úthafskarfa 2017 og 2018 var felld en samþykkt tillaga um 7.500 tonna heildarveiði 2017. Rússland mun setja sér einhliða kvóta upp á 25 þúsund tonn, þannig að heildarveiðin getur orðið um og yfir 30 þúsund tonn. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir Ísland, að því er fram kemur á vef atvinnuvegaráðuneytisins .
NEAFC fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna einstakra ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Samþykktar voru stjórnunaraðgerðir fyrir allmarga fiskistofna á árinu 2017, þar á meðal karfa á Reykjaneshrygg og ýsu á Rockall svæðinu.
Af hálfu Íslands var mest áhersla lögð á að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg, en þar lá nú í fyrsta sinn fyrir ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar næstu tvö ár. Um er að ræða tvo sérstaka karfastofna, sem báðir hafa verið ofveiddir um árabil og eru í útrýmingarhættu ef ekkert er að gert. Rússland viðurkennir ekki stofnmat ICES fyrir karfa við Reykjaneshrygg og setur sér því einhliða kvóta sem á þessu ári er nær þrefalt meiri en ráðlögð heildarveiði.