NA-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) hefur samþykkt að loka stórum svæðum fyrir botnfiskveiðum á Mið-Atlantshafshryggnum til þess að vernda viðkvæmt lífríki í úthafinu í NA-Atlantshafi. Það hefur ekki í för með sér stöðvun veiða sem Íslendingar hafa stundað hingað til.
,,Þetta mun ekki hafa áhrif á þær veiðar sem Íslendingar stunda núna, en þarna er verið að loka svæðum sem hugsanlega væri unnt að þróa veiðar á í framtíðinni á afmörkuðum blettum að því gefnu að þær yllu ekki skaða á vistkerfinu,” sagði Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og núverandi forseti NEAFC sagði í samtali við Fiskifréttir. Hann sagði að einhverjar veiðar hefðu verið stundaðar á takmörkuðum svæðum innan þessara stærri svæða.
Lokuðu svæðin sem um ræðir eru samtals 330.000 ferkílómetrar eða stærri að flatarmáli en Bretlandseyjar og Írland til samans, að því er segir í frétt frá NEAFC.
Þessar ráðstafanir koma til viðbótar áður ákveðnum aðgerðum til verndar lífríki sjávar í NA-Atlantshafi sem NEAFC hefur beitt sér fyrir.
Frétt NEAFC um málið ásamt kortum af lokuðu svæðunum má sjá á vefsíðu nefndarinnar, HÉR