Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin, NEAFC, hefur tilkynnt að frá og með deginum í dag, 1.júlí, nái eftirlit til þess að sporna við löndun á ólöglegum afla í höfnum aðildarríkjanna ekki aðeins til frystra afurða, eins og hingað til hefur tíðkast, heldur einnig til ferskfisks og ferskrar fiskafurða.
Nú í næstum einn áratug hefur verið í gildi sú regla að vilji erlend skip landa frystum fiski í höfnum aðildarríkja NEAFC þurfi þau að framvísa vottorði frá fánaríki skipsins um að skipið sé löglega skráð og hafi haft kvóta fyrir aflanum. Jafnframt framkvæma hafnaryfirvöld á hverjum stað sína skoðun. Í fréttatilkynningu frá NEAFC segir að þessar ráðstafanir hafi borið mjög góðan árangur í baráttunni gegn ólöglegum veiðum.
Aðildarríki NEAFC eru Evrópusambandslöndin, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Ísland, Noregur og Rússland.