Stjórn Útvegsbændafélagsins Heimaeyjar í Vestmannaeyjum og skipstjórnarmenn innan vébanda félagsins skora á sjávarútvegsráðherra að auka þegar í stað úthlutun í þorski, ýsu og ufsa. Það er mat stjórnar félagsins og skipstjórnarmanna að þessir stofnar séu sterkari en ástandsskýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar gefa til kynna og þoli meiri veiði án þess að vikið sé frá varúðarsjónarmiðum.
Í ályktun félagsins segir að gríðarleg gengd þorsks, ýsu og ufsa hafi fylgt stærstu loðnugöngum við landið um margra ára skeið. Þetta hafi endurspeglast í mokveiði á boltafiski í allar gerðir veiðarfæra.
Skorað er á sjávarútvegsráðherra að bregðast skjótt við og auka aflaheimildir í þorski, ýsu og ufsa þannig að ekki komi til þess að binda þurfi skip vegna kvótaskorts á miðju fiskveiðiári.