Báturinn er af gerðinni Sómi 870 og ber nafnið AVATAQ FTJ 8213. Kaupandinn er Náttúrufræðistofnun Grænlands. Báturinn er á margan hátt ólíkur fyrri Sómabátum enda smíðaður samkvæmt dönskum smíðareglum en þær kveða meðal annars á um sérstakar ísstyrkingar í skrokki og hönnun útfrá hljóðmengun. Báturinn er útbúinn Volvo Penta D-6, 400 hp vél og siglingartækjum frá Garmin.
Báturinn verður notaður til rannsóknaverkefna í Nuukfirði en Náttúrufræðistofnun Grænlands fylgist með bráðnun jökulsporða í firðinum ásamt ástandi og lífríki sjávar.