Af þeim botnfiski sem var seldur ferskur og flogið á markað árið 2019 var 34% unninn af fiskvinnslum sem staðsettar voru á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtæki á Suðurnesjum seldu önnur 22%. Þessi fyrirtæki eru bæði staðsett nálægt stærsta millilandaflugvelli og stærstu höfn landsins.

Í Eyjafirði eða innan við klukkustundar fjarlægð frá Akureyri voru fyrirtæki sem seldu 24% af ferskum fiski. Þar eru staðsett sum af stærstu fyrirtækjum landsins og er fiskurinn annað hvort lestaður um borð í skip í höfnum á Norðurlandi eða fluttur með bílum á millilandahafnir á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu eða í flug á Keflavíkurflugvelli.

Frá þessu segir í nýrri skýrslu: Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.

Þar segir jafnframt í þessu samhengi að fiskvinnslufyrirtæki, sem „eru staðsett úr alfaraleið og sem reiða sig mikið á hráefni sem keypt er á fiskmörkuðum, standa höllum fæti í samkeppni við þau sem eru staðsett á heppilegri stöðum með tillitil til flutninga.“

Árið 2019 komu 72% af óunnum fiski sem fluttur var utan í gámum frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og 15% frá fyrirtækjum í Vestmannaeyjum.

„Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu njóta nálægðarinnar við Reykjavíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll og frá Vestmannaeyjum eru tíðar siglingar flutningaskipa,“ segir í skýrslunni.