Samstarf norskra og rússneskra hafrannsóknamanna er í lágmarki þessa dagana, eftir að ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin og fleiri vestræn ríki samykktu harðar refsiaðgerðir gegn Rússlandi.
Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, segir að vísindasamstarfið hafi til þessa verið undanþegið refsiaðgerðum, en engu að síður séu samskiptin með allra minnsta móti.
Norðmenn og Rússar hafa áratugum saman haft með sér mjög náið samstarf um hafrannsóknir. Skipst hefur verið á rannsóknagögnum, haldið saman í rannsóknaleiðangra og unnið saman að veiðiráðgjöf í Barentshafi.
Árlegir samráðsfundir hafa verið haldnir síðan 1958 og farið var í fyrsta sameiginlega rannsóknaleiðangurinn árið 1965.
„Ef refsiaðgerðirnar yrðu látnar ná til fiskveiðisamstarfsins þá gætu vísindamennirnir ekki deilt með sér upplýsingum milli landanna,“ segir Nils Gunnar Kamstø, forstjóri norsku hafrannsóknastofnunarinnar. „Þá fengjum við lélegri vísindagrunn undir úthlutun veiðiheimilda.“
Veiðar í Barentshafi
Auk vísindasamstarfs hafa Norðmenn og Rússar haft með sér samstarf um fiskveiðar frá því á miðjum áttunda áratug síðustu aldar. Haldnir eru fundir á haustin þar sem teknar eru ákvarðanir um heildarkvóta fyrir veiðar næsta árs í Barentshafi, og þar munar mest um þorskveiðar.
Fiskeribladet fjallar um þetta og segir ekkert hafa verið hugað að því að hætta því samstarfi. Þvert á móti hrjósi mörgum hugur við því ef upp úr slitnar.
Torben Foss, lögmaður og fyrrverandi deildarstjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu, segir þó spurningar óhjákvæmilega vakna um það hvort mögulegt verði að framlengja fiskveiðisamning við Rússa fyrir árið 2023.
Norðmenn eigi erfitt með að hugsa sér að rjúfa samninginn, en fari svo að stríðið gegn Úkraínu haldi áfram fram á haustið, eða ef hernám Rússa standi fram á haustið, þá verði mögulega ekki hægt að endurnýja samninginn í haust.
Varla til langframa
Fiskeribladet hefur einnig rætt við Geir Hønneland, fyrrverandi hafrannsóknamann, sem segir að fari svo að slitni upp úr samningum ætti þó að verða auðvelt að endurnýja þá þegar ástandið lagast. Fyrir Rússa yrði mjög erfitt að fá ekki til langframa að veiða í norskri lögsögu.
Í vikunni sigldu um 40 rússneskir togarar inn á norska firði til að leita þar vars. Norski herinn sagði þó enga hættu á ferðum, enda sé alvanalegt að Rússar óski eftir leyfi til þess að sigla inn á firði þegar veður eru válynd.
„Við erum allir bræður á hafinu,“ hefur Fiskeribladet eftir Ivar Moen, fjölmiðlafulltrúa hersins.