Botnfiskafli mun aukast og getur orðið 500.000 tonn árið 2019 og með auknum afla og veikingu krónunnar getur næsta ár orðið mjög sterkt ár fyrir sjávarútveginn. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Kristjáns Hjaltasonar, sérfræðings í sölu- og markaðsmálum hjá Norebo Europe, á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku.
Kristján sagði að árið 2017 hefði ekki verið hagfellt þeim sem vinna botnfisk. Sjómannaverkfallinu hafi ekki lokið fyrr en í lok febrúar og ekki hafi tekist að vinna upp tapað aflamagn það sem eftir var ársins. Í heildina var landað 426.000 tonnum á árinu samanborið við 460.000 tonn árið 2016. Samdráttur hafi verið í öllum tegundum nema ufsa sem stóð í stað.
Mestur botnfiskafli frá 1994
„Á yfirstandandi ári áætla ég að botnfiskaflinn aukist um 50.000 tonn frá síðasta ári og verði 472.000 tonn. Skiptir þar mestu máli aukinn afli þorsks, ýsu, ufsa og djúpkarfa en ég reikna með samdrætti í gullkarfa. Miðað við útgefinn kvóta reikna ég með að afli botnfiska geti farið í 500.000 tonn á næsta ári og yrði það mestur afli frá árinu 1994. Afli þorsks verði um 273.000 tonn, ýsu um 59.000, ufsa 79.000, afli djúpkarfa fari úr 8.000 tonnum í 13.000 tonn en gullkarfi fari úr 50.000 tonnum í fyrra í 44.000 tonn. Það verður því nóg að gera hjá sölu- og markaðsmönnum á næsta ári,“ sagði Kristján.
Kristján gaf einnig yfirlit og spár yfir veiðar á öðrum tegundum. Árlegur afli flatfiska hafi verið 20-30.000 tonn síðasta áratug. Aflinn á síðasta ári hafi verið 22.000 tonn, þar af 12.000 tonn af grálúðu og 6.700 tonn af skarkola. Hann telur að heildarmagn flatfiskaflans muni aukast lítillega á næsta ári. Mestar sveiflur séu þó í afla uppsjávarfiska. Á síðasta ári veiddust 728.000 tonn sem var aukning upp á 160.000 tonn frá árinu áður. Þar munaði mestu um aukinn afla loðnu, kolmunna og norsk-íslensku síldarinnar en afli afli íslensku sumargotssíldarinnar og makríls dróst saman.
Aðeins 600.000 tonn af uppsjávarfiski
„Það er erfitt að spá fyrir um uppsjávaraflann fyrir næsta ár. Ég leitaði því til nokkurra útgerðarmanna og bað þá um að spá fyrir um afla á þessu og næsta ári. Niðurstaðan var sú að aflinn á þessu ári verði 683.000 tonn og á næsta ári komi einungis 600.000 tonn á land.“
Í samantektinni kom fram að eingöngu voru veidd um 11.000 tonn af skel-, lin- og krabbadýrum í fyrra. Rækjuveiðar eru enn mjög litlar en reikna megi með afla upp á 5.000 tonn af öllum svæðum. Jöfn aukning hafi orðið í sæbjúguveiðum sem náðu 3.200 tonnum í fyrra og reikna megi með afla upp á 6.000 tonn á þessu ári og 4.000 tonn á næsta ári. Þá valdi mikill samdráttur í humarveiðum vonbrigðum. Þá sé mikill vöxtur í fiskeldi. Í fyrra var slátrað um 20.000 tonnum, þar af 11.300 tonnum af laxi, 4.300 tonnum af regnbogasilungi og 4.500 tonnum af bleikju. Miðað við spár dragist eldi á silungi talsvert saman en slátrað verði um 16.000 tonnum af laxi á næsta ári og um 5.000 tonnum af bleikju. Innfluttur fiskur í fyrra með löndunum erlendra skipa nam 114.000 tonn, mest loðna og kolmunni.
Kristján sagði að 450.000 tonn hafi farið í bræðslu á síðasta ári, 350.000 í landfrystingu og 170.000 tonn voru fryst á sjó. Mikil aukning hafi orðið í landfrystingu á síðustu árum á sama tíma og dregið hafi úr bræðslu og sjófrystingu.
Breytingar á afurðaflokkum
Eftir vinnsluflokkum er landfrystingin stærst, sjófrysting fylgir þar á eftir en fersk flök eru að nálgast sjófrystinguna í magni. Stöðugleiki hefur verið í saltfiskvinnslu en útflutningur á ferskum, óunnum fiski hefur aukist og sagði Kristján að ekki virðist sem neitt lát verði á því á þessu ári. Í tölum Hagstofunnar er flokkur sem kallast endursala og er magnið yfir 20.000 tonn á þessu ári. Afli karfa var 42.000 tonn, þar af voru tæplega 20.000 tonn heilfryst úti á sjó, 12.000 tonn fóru fersk og óunnin úr landi, 3.000 tonn voru fryst í landi og 1.500 tonn voru seld sem fersk flök á erlenda markaði.
Kristján rakti þær breytingar sem orðið hafa á afurðaflokkum þorsks frá árinu 2007, 2012 og 2017. Frá 2007 til 2017 hefur landfrysting vaxið úr 26.000 tonnum í 36.000 tonn. Mikilvægasta breytingin er þó hinn mikli vöxtur sem hefur orðið í vinnslu á ferskum flökum á þessu tímabili. 2007 var magnið 9.000 tonn en 26.000 tonn í fyrra. Mikil minnkun hafi orðið á söltuðum afurðum sem hafa dregist saman úr 34.000 tonnum árið 2007 í 22.000 tonn árið 2017. Fjórði stærsti afurðaflokkurinn eru þurrkaðar afurðir sem var 12.000 tonn í fyrra. Sjófrysting á flökum var í fyrra 10.000 tonn sem er sama magn og var árið 2007.
„Við sjáum aukningu í óunnum þorski og ef upplýsingar frá Hagstofunni eru réttar voru flutt út 3.000 tonn af heilfrystum þorski í fyrra en ég hélt að slík vinnsla væri einungis stunduð af Norðmönnum og Rússum,“ sagði Kristján.
Botnfiskur 65% af útflutningstekjunum
Kristján sagði að ekki hefði árað vel í botnfiskútflutningi í fyrra. Þar hafi skipt miklu máli hátt gengi íslensku krónunnar. Meðalgengi evru árið 2016 hafi verið 133 krónur og 121 króna árið 2017. Afleiðingar af þessu og minni útflutningi, m.a. vegna sjómannaverkfallsins, hafi verið samdráttur í útflutningstekjum um 30 milljarða króna. Staðan nú sé breytt. Afli á árinu hafi verið mikill og horfur á næsta ári séu góðar vegna aukinna veiðiheimilda á botnfiski. Veikara gengi krónunnar muni einnig stuðla að hagfelldari rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Með útfluttum eldisfiski og niðurlögðum afurðum nam útflutningsverðmæti botnfiskafurða á síðasta ári 215 milljörðum króna. „Miðað við áætlanir um veiðar, eldi og innflutning, óbreytt markaðsverð og að því gefnu að meðalgengi krónunnar veikist um 5% á næsta ári, þá geta útflutningstekjur sjávarafurða aukist um 22 milljarða á þessu ári og 18 milljarða á næsta ári. Þá næmi verðmæti útfluttra sjávarafurða 255 milljörðum króna.“
Kristján kynnti sína spá um útflutningstekjur sjávarafurða 2019. Samkvæmt henni verða útflutningstekjur af bolfiskafurðum 65% útfluttum sjávarafurðum að verðmæti 165 milljarðar króna sem er aukning um 38 milljarða króna frá 2017. Tekjur af uppsjávartegundum nemi 40 milljörðum króna sem er samdráttur um fjóra milljarða frá síðasta ári.
„Þriðji verðmætasti flokkurinn verður eldisfiskar með verðmæti upp á 16 milljarða króna, eða rúm 7% af útflutningstekjunum.“
Frakkland að taka fram úr
Í erindi Kristjáns voru raktar þær miklu breytingar sem orðið hafa á mörkuðum fyrir botnfiskafurðir Íslendinga. Stærsti markaðurinn er sem fyrr Bretland og nam útflutningurinn þangað í fyrra 22 milljörðum króna sem er samt samdráttur um 10 milljarða króna frá árinu 2012. Þar ráði miklu veiking pundsins eftir Brexit kosningarnar 2016. Reikna megi með að Frakkland taki við af Bretlandi sem stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenskar botnfiskafurðir á þessu ári. Þangað voru fluttar út afurðir fyrir 21 milljarð króna í fyrra sem var vöxtur upp á 34% á fimm árum. Þar ráði mestu vöxtur í útflutningi á ferskum flökum. Spánn er þriðji verðmætasti markaðurinn en þangað voru fluttar út afurðir fyrir 17 milljarða króna 2017. Aukning í ferskum flökum skilar einnig aukinni sölu til Bandaríkjanna en þangað fóru 12% af útflutningnum. Salan til Þýskalands, Belgíu, Portúgals og Hollands hafi dregist verulega saman.