Vestmannaey VE landaði í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær. Um fullfermi var að ræða og var aflinn mest ýsa og þorskur ásamt dálitlu af ufsa. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði hvort hann væri ekki ánægður með túrinn.
„Jú, það er vart hægt að vera annað. Við fórum út seint á fimmtudagskvöld og vorum einungis í um 40 tíma að veiðum. Það var keyrt beint austur á Ingólfshöfðann og á þeim slóðum vorum við allan tímann. Það gekk vel að veiða og það var rjómablíða allan túrinn. Strax eftir löndun skal halda út og nú á að reyna við ufsa. Ég er ekkert alltof bjartsýnn á að það gangi vel,” sagði Birgir Þór.
Systurskipið Bergey VE kom síðan til löndunar í Eyjum í morgun einnig með fullfermi. Jón Valgeirsson skipstjóri var hress þegar heimasíðan sló á þráðinn til hans.
„Það gekk vel að veiða og aflinn var mest ýsa og þorskur. Veitt var á Ingólfshöfða og Mýragrunni í fínasta veðri. Túrinn var stuttur og hann gekk vel í alla staði. Það eina sem unnt er að kvarta undan er hve illa gengur að finna ufsann,” sagði Jón.