Útgerðir kolmunnaskipa sjá fram á mikið tap af veiðunum á þessu ári verði veiðigjaldinu ekki breytt. Gjaldið er nú 4,78 krónur á kílóið og miðað við 143 þúsund tonna heildarkvóta Íslands myndi gjaldið nema samtals 684 milljónum króna, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Eskja á Eskifirði reiðir sig mjög á kolmunnaveiðar. Fyrirtækið er með rúmlega 28 þús. tonna kolmunnakvóta á þessu ári og þyrfti að greiða 134 milljónir króna í veiðigjald en áætlaður rekstrarhagnaður af veiðunum er aðeins 40 milljónir króna. Eskju telst til að rekstrartap af veiðunum yrði 95 milljónir króna á árinu.

Hugmyndir um breytingar á veiðigjaldi kolmunna eru nú til athugunar í atvinnuveganefnd Alþingis.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem komu út í dag.