Mun minna mældist af norsk-íslenskri síld við Ísland í nýlegum leiðangri en árin á undan. Alls mældust nú um 550 þús. tonn innan íslensku landhelginnar í samanburði við 1-1,4 milljón tonna árin þrjú á undan. Hins vegar var vart við töluvert magn af eins árs kolmunna í leiðangrinum sem gæti bent til góðrar nýliðunar, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.

Nú í vikunni lauk árlegum 24 daga leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar á R/S Árna Friðrikssyni með það að markmiði að kanna útbreiðslu og magn kolmunna og norsk-íslenskrar síldar fyrir vestan, sunnan og austan land, ásamt umhverfismælingum. Leiðangurinn er hluti af sameiginlegri leit og bergmálsmælingum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Evrópusambandsins á útbreiðslusvæði þessara stofna. Eru niðurstöðurnar notaðar við mat á stærð stofnanna.

Útbreiðsla norsk-íslenskrar síldar var nokkuð frábrugðin útbreiðslu stofnsins á sama tíma á síðustu þremur árum að því leyti að hún hafði ekki gengið eins langt í vestur. Þannig var enga síld að finna í kalda Austur Íslandsstraumnum en sunnan og vestan við hann í utanverðu Héraðsdjúpi mældist nokkurt magn af norsk-íslenskri síld. Hvort síldin í Héraðsdjúpinu hafi gengið suður fyrir köldu tunguna eða hafi haft vetursetu á íslensku hafsvæði er óvíst. Það sem styður seinni möguleikann er að síldin þar var þyngri miðið við lengd en síldin úti í hafinu og vart var við vorgotssíld á þessum slóðum í lok október síðast liðnum.

Alls mældust nú um 550 þús. tonn norsk-íslenskrar síldar innan íslensku landhelginnar í samanburði við 1-1,4 milljón tonna árin þrjú á undan. Ástæðan fyrir því að minna mælist nú í íslensku lögsögunni er líklegast sú að síldin er seinna á ferðinni en undanfarin ár. Þá getur hluti skýringarinnar legið í því að elstu og stærstu síldinni, sem er að miklu leyti úr stóru árgöngunum frá 1998 til 2000, fer fækkandi í stofninum. Þessi síld leitaði einmitt mest hingað undanfarin ár í fæðuleit og var að öllu jöfnu fremst í göngunum.

Í byrjun leiðangursins var útbreiðsla kolmunna könnuð með landgrunnskantinum fyrir suðvestan og sunnan land og fannst töluvert magn af eins árs kolmunna á þessu svæði. Við Íslands-Færeyjahrygginn var þennan árgang einnig að finna en hins vegar var nánast ekkert vart við fullorðinn kolmunna í leiðangrinum. Þessar niðurstöður gætu því verið vísbending um að loks sé að koma upp sæmilegur árgangur af kolmunna en allir árgangar frá og með 2005 hafa verið mjög litlir.


Leiðangursstjórar voru Sveinn Sveinbjörnsson og Guðmundur J. Óskarsson.