Faxaflóahafnir sf. hafa tekið saman yfirlit um skipakomur ársins 2017; tegundir skipa sem til hafnar komu og stærð þeirra. Á árinu 2017 komu samtals 1.516 skip og ef litið er til ársins 2016 þá er aukning um samtals 14 skip á milli ára.
Breytingar á skipakomum eru þó meiri en heildartalan gefur til kynna.
Mest var aukningin á árinu 2017 í komu flutningaskipa eða um rúmlega 19%. Næst mest var aukningin á skipakomum skemmtiferðaskipa eða tæp 18%. Um 12% aukning var á skipakomum annarra skipa (þ.e. skútur, snekkjur og skip sem flokkast ekki undir neðangreindar tegundir) og 3% aukning varð á tankskipum.
Fiskiskipum fækkar
Einna athyglisverðast er þó að komum fiskiskipa fækkaði mjög á árinu eða um 22%. Komum rannsóknar- og varðskipa fækkaði um 8%.
Annað sjónarhorn bendir einnig til breytinga, en ef brúttótonnatala skipanna er lögð saman sést að á árinu 2016 komu skip að stærð 9.3 milljónir brúttótonna til hafna Faxaflóahafna. Hins vegar var heildarstærðin komin upp í 11.2 milljónir brúttótonn árið 2017.